isbillinn

Ísbíllinn er lítið fjölskyldufyrirtæki sem byrjaði með einum bíl um Hvítasunnuna árið 1994. Í dag rekur Ísbílaútgerðin ehf. 11 Ísbíla um allt land. Áætlun hvers árs nær frá mars fram í desember: einu sinni í mánuði á vorin og haustin en tvisvar í mánuði á sumrin. Engar áætlunarferðir eru í janúar og febrúar.

Aðalsmerki Ísbílsins er að veita framúrskarandi þjónustu. Við tryggjum að ísinn kemst í fullkomnu lagi heim að dyrum hjá þér. Ísinn okkar er ávallt ferskur og hefur alltaf verið geymdur við rétt hitastig.

Við leggjum áherslu á að allir geta fundið ís við sitt hæfi: Við bjóðum upp á sykurlausan ís, laktósfrían ís, lífrænan ís, mjólkurlausan ávaxtaís og hitaeiningasnauðan ís auk hefðbundins rjómaís, jurtaís og frostpinna.

Auk þess bjóðum við upp á ýmsar aðrar frosnar matvörur. Í ár bjóðum við upp á fisk, pítsur og ávexti. Við munum halda áfram að auka úrvalið eins og kostur er.

Við reynum að gera komu Ísbílsins að skemmtilegri uppákomu 7-12 sinnum á ári. Við keyrum inn í hverja götu, heim að hverjum bæ og um flest fjölmennari sumarbústaðalönd, hringjum glaðlegri bjöllunni og stoppum í nokkrar mínútur á hverjum stað.

Árið 2012 hóf Ísbíllinn að byggja upp leiðakerfi um allt höfuðborgarsvæðið. Nú í ár lýkur loks því verki og allt höfuðborgarsvæðið verður í áætlun í sumar. Áætlunarferðir eru í öllum bæjarfélögum landsins og um allar sveitir.